UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, fylgist grannt með eldgosinu í Eyjafjallajökli og er í startholunum með að fresta undanúrslitaleikjum Evrópudeildarinnar, Atlético Madrid - Liverpool og Hamburger SV - Fulham, á fimmtudaginn kemur.
Liverpool og Fulham eru háð því að geta flogið frá Bretlandseyjum til Spánar og Þýskalands eftir helgina en allt flug liggur niðri sem stendur vegna ösku frá Eyjafjallajökli.
Hinsvegar er búið að tryggja að leikirnir í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu fari fram. Barcelona fer landleiðina til Mílanó þar sem liðið mætir Inter á þriðjudagskvöldið, og lið Lyon fer sömuleiðis akandi til München þar sem það mætir Bayern á miðvikudagskvöldið.
„UEFA leggur áherslu á að um eðlileg ferðalög sé að ræða og lið þurfi ekki að vaða eld og brennistein til að komast á leikstað. Óskastaðan er sú að askan hætti að berast og við getum flogið til Þýskalands. Leikurinn er algjörlega háður því að það séu flugsamgöngur. Ef þær liggja niðri, væri eini möguleikinn að fara með lest og síðan rútu til Hamborgar, og þá er ekki einu sinni víst að þau farartæki væru til reiðu ef á þyrfti að halda. En ég er viss um að UEFA leysir þetta á farsællegan hátt," sagði Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Fulham, við BBC í dag.