Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, segist telja víst að Wayne Rooney, fyrrum félagi sinn hjá Manchester United, hafi lítinn áhuga á að koma til Spánar til að spila með Madrídarliðinu.
Real keypti Ronaldo af Manchester United síðasta sumar og samkvæmt fregnum að undanförnu er spænska stórveldið að undirbúa tilboð í Rooney og ætlar auk þess að krækja í Fabio Capello, landsliðsþjálfara Englands.
„Ég er enn góður vinur þeirra Wayne Rooney, Rio Ferdinand og Nemanja Vidic hjá Manchester United. Ég held að Rooney sé afar ánægður í Manchester og jafnvel þó Real Madrid reyni að kaupa hann, held ég að hann vilji ekki koma hingað," sagði Ronaldo í viðtali við enska blaðið News of the World í dag, og þar kom fram að hann og Rooney væru reglulega í sambandi.