Gylfi Þór skoraði í jafntefli Reading

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Reuters

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði annað mark Reading úr vítaspyrnu þegar liðið gerði 2:2 jafntefli við Scunthorpe í ensku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Það stefndi allt í öruggan sigur Reading en heimamönnum tókst að jafna metin með tveimur mörkum á síðustu átta mínútum leiksins.

Gylfi skoraði af öryggi úr vítaspyrnu á 72. mínútu leiksins en hann lék allan tímann. Brynjar Björn Gunnarsson sat allan tímann á bekknum en hvorki Ívar Ingimarsson né Gunnar Heiðar Þorvaldsson léku með.

Reading er í 9. sæti deildarinnar með 60 stig og á ekki lengur möguleika á að komast í aukakeppnina um eitt laust sæti í úrvalsdeildinni.

QPR vann Watford, 1:0, en Heiðar Helguson mátti ekki leika með Watford þar sem hann er í láni hjá félaginu frá QPR. Úrslitin þýða að Watford er áfram í talsverðri fallhættu. Scunthorpe bjargaði sér með stiginu gegn Reading í kvöld og í tveimur síðustu umferðunum berjast því Watford með 48 stig, Crystal Palace með 47 og Sheffield Wednesday með 46 stig um að halda sér í deildinni. Eitt þessara þriggja liða fellur ásamt Plymouth og Peterborough.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert