Enska blaðið Reading Post segir í dag að ekki sé ólíklegt að Ívar Ingimarsson, fyrirliði Reading, verði fyrsti leikmaðurinn sem Steve Coppell fái til liðs við sig eftir að hann tekur við sem knattspyrnustjóri Bristol City. Frá ráðningu hans þar verður gengið formlega í dag.
Ívar lék undir stjórn Coppells hjá Brentford á sínum tíma og eftir að Coppell var ráðinn til Reading var hann ekki lengi að fá Stöðfirðinginn aftur í sinn leikmannahóp. Ívar hefur spilað með Reading frá 2003, lengst allra núverandi leikmanna félagsins, og megnið af þeim tíma undir stjórn Coppells, sem oft lýsti því yfir að það hefðu verið sín bestu kaup að krækja í Ívar.
Samningur Ívars við Reading rennur út í vor. Hann hefur ítrekað látið í ljós áhuga á að vera áfram hjá félaginu. Reading Post segir í dag að Ívar sé ekki sáttur við það sem er í boði hjá Reading fyrir næsta tímabil. Hann er frá keppni fram á sumar vegna meiðsla en á að vera tilbúinn í slaginn á ný þegar næsta tímabil hefst.
Bristol City er í 11. sæti 1. deildar, einu stigi á eftir Reading sem er í 9. sætinu.