Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að vangaveltur um hver eigi að taka við af sér á næsta ári séu óþarfar. Hann sé ekki með nein áform um að hætta með liðið eftir næsta tímabil.
Mikil umræða hefur spunnist um hver muni að lokum leysa Ferguson af hólmi. Hann hefur stýrt United í 24 ár og mál manna hefur verið að hann víki til hliðar að ári, vorið 2011. José Mourinho og David Moyes hafa helst verið nefndir til sögunnar sem arftakar hans.
Ferguson er 68 ára gamall og United hefur orðið enskur meistari þrjú undanfarin ár undir hans stjórn. Hann var við það að hætta árið 2002 en hætti við það og hefur verið sigursæll sem aldrei fyrr frá þeim tíma. Í fyrra sagði Ferguson að það væri líklega komið fram í vítaspyrnukeppni á ferlinum hjá sér en þegar hann ræddi við fréttamenn í morgun var ekkert slíkt hljóð í honum.
„Þetta er tóm vitleysa, það er ekkert til í þessu. Ég hef engin áform um að setjast í helgan stein, og ef svo væri myndi ég fyrst ræða það við David Gill og Glazer-fjölskylduna. Það er álag á mér en ég ræð vel við það. Eina atriðið sem segir til um hvort ég haldi áfram í starfi er heilsan, og ég er við hestaheilsu," sagði Ferguson.