Lampard: Fáum ekkert gefins hjá Liverpool

Frank Lampard skorar úr vítaspyrnu gegn Stoke í gær.
Frank Lampard skorar úr vítaspyrnu gegn Stoke í gær. Reuters

Frank Lampard miðjumaðurinn snjalli hjá Chelsea hefur varað samherja sína við leiknum gegn Liverpool um næstu helgi. Hann segir að Chelsea muni ekki fá neitt gefins í þeim leik þó svo að flestir stuðningsmenn Liverpool vilji frekar að Chelsea hampi Englandsmeistaratitlinum í ár frekar en Manchester United.

,,Leikmenn Liverpool munu mæta til leiks með því hugarfari að vinna. Þeir vilja vera sannir atvinnumenn. Það er enginn hætta á að þeir hugsi um annað en að vinna án tillits hvort það hjálpi þeim að komast í Meistaradeildina eða ekkert. Liverpool mun leggja allt í sölurnar, ég er ekki í nokkrum vafa um það,“ sagði Lampard við fréttamenn.

Fari svo Liverpool taki stig af Chelsea er hætta á að erkifjendur þeirra í Manchester United skáki þeim við hvað fjölda meistaratitla varðar en Liverpool og United hafa unnið titilinn oftast allra liða eða 17 sinnum.

,,Þetta verður erfiður leikur. Það vita allir þegar þeir sækja Liverpool heim hvenær sem það er á tímabilinu,“ sagði Lampard, sem skoraði 2 mörk í 7:0 sigri Chelsea í gær og hefur þar með skorað 20 mörk í deildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert