Hermann Hreiðarsson vonast eftir því að honum verði boðinn nýr samningur hjá Portsmouth en samningur hans við suðurstrandarliðið rennur út í sumar. Hermann varð fyrir því óláni að slíta hásin í síðasta mánuði og verður varla orðinn leikfær fyrr en næsta vetur.
Portsmouth hefur enn ekki boðið Hermanni nýjan samning. Bæði er það vegna meiðsla hans og eins er framtíð félagsins afar óljós en vegna bágrar fjárhagsstöðu en Portsmouth er fallið úr úrvalsdeildinni. Það varð ljós eftir að félagið neyddist til að fara í greiðslustöðvun en við það missti það 10 stig.
,,Hermann mun snúa til baka. Hann er ekki hættur og vonast til að geta byrjað aftur að spila í október eða nóvember,“ segir Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Hermanns, við fréttavef Sky í dag.
,,Ég teldi það vera sanngjarnt ef Portsmouth byði Hermanni nýjan samning þar sem hann hefur gefið sig allan fyrir félagið. Við höfum ekki fengið tilboð enn sem komið er en Herman vill vera áfram hjá liðinu. Honum líkar vel hjá því og elskar stuðningsmenn þess. Ef þú værir í stríði þá myndir þú vilja hafa einhvern eins og Hermann með þér í liði,“ sagði Ólafur, sem telur að Hermanni eigi tvö til þrjú góð ár eftir í boltanum.