Eiður Smári Guðjohnsen segir á vef Tottenham að hann sé hrifinn að því hversu vel liðinu hafi tekist að fást við pressuna í baráttu liðsins um fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni. Þegar tvær umferðir eru eftir er Tottenham í fjórða sætinu með 64 stig, jafnmörg stig og Aston Villa sem er í fimmta sæti en Tottenham á leik til góða eins og Manchester City sem hefur 63 stig.
Tottenham hefur unnið sjö af síðustu níu leikjum sínum og með sigri gegn Bolton á laugardaginn á liðið góða möguleika á að ná Meistaradeildarsætinu en á sama tíma eigast við Manchester City og Aston Villa.
,,Um þetta snýst fótboltinn. Ég er heppinn að hafa verið í þessari stöðu í gegnum minn feril. Drengirnir hafa tekist á við pressuna afar vel því margir þeirra er í fyrsta skipti í þessari stöðu. Við höfum tekið framförum á síðustu viku. Við náðum frábærum úrslitum á móti Arsenal og Chelsea og það voru ekki bara sigrarnir gegn þeim heldur hvernig við spiluðum leikina,“ segir Eiður á vef Tottenham.,,Nú þegar við eigum þrjá leiki eftir þá er það í okkar höndum að halda fjórða sætinu. Við verðum að sýna styrk okkar og karakter. Það er til mikils að vinna, Meistaradeildin sem er stærsta og besta keppnin,“ segir Eiður en liðið mætir eins og áður segir Bolton á laugardaginn á Rebook, leikur við Manchester City á útvelli á miðvikudaginn og fær svo Burnley í heimsókn í lokaumferðinni 9. maí.