Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Chelsea, kveðst að vonum vera spenntur fyrir viðureignina gegn Liverpool í úrvalsdeildinni á morgun. Ekki bara vegna mikilvægi leiksins fyrir sitt lið, heldur vegna þess að nú komi hann í fyrsta skipti á Anfield, hinn sögufræga heimavöll Liverpool.
Chelsea þarf á sigri að halda á Anfield á morgun en liðið er stigi á undan Manchester United þegar tveimur umferðum er ólokið. Takist Chelsea að vinna, nægir liðinu að leggja Wigan á heimavelli í lokaumferðinni til að standa uppi sem meistari. Sigur á morgun gæti jafnvel fært Chelsea titilinn strax, ef United tapar í Sunderland síðar um daginn.
Ef Chelsea missir hinsvegar stig, geta vopnin snúist í höndunum á Ancelotti og hans mönnum því þá myndi United geta náð undirtökunum fyrir lokaumferðina með sigri í Sunderland.
„Ég hef aldrei komið þangað, ekki sem leikmaður, þjálfari eða stuðningsmaður. Þetta er í fyrsta skipti, og ég er afar spenntur því völlurinn er frægur fyrir sína einstöku stemmningu," sagði Ancelotti við Daily Mail.
Ancelotti stýrði AC Milan gegn Liverpool í úrslitaleikjum Meistaradeildar Evrópu, í Istanbúl 2005 þegar Liverpool vann frækinn sigur eftir að hafa lent 0:3 undir, og í Aþenu 2007 þegar AC Milan kom fram hefndum og sigraði, 2:1.
„Ég hef oft leikið gegn Liverpool á mikilvægum stundum á mínum ferli. Liverpool er félag með magnaða sögu og það er einstök tilfinning að heyra stuðningsmenn þess syngja „You'll Never Walk Alone," enda þótt ég sé ekki aðdáandi Liverpool," sagði Ancelotti.
Leikur Liverpool og Chelsea hefst kl. 12.30 en viðureign Sunderland og Manchester United á Stadium of Light hefst klukkan 15.00.