Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur beðið stuðningsmenn liðsins um að bíða rólega og treysta sér og forráðamönnum félagsins fyrir því að styrkja liðið á réttan hátt í sumar.
Margir fylgismenn Arsenal voru ósáttir við að Wenger skyldi ekki leita eftir liðsauka í janúar, sérstaklega með því að bæta sóknarmanni í hópinn. Meiðsli lykilmanna voru Arsenal dýrkeypt í vetur en Robin van Persie var frá keppni stóran hluta tímabilsins og Cesc Fabregas missti mikið úr. Erfitt reyndist að fylla skörð þeirra.
Framherjinn Marouane Chamakh er væntanlegur frá Bordeaux í sumar og Wenger kveðst vongóður um að gera góð kaup áður en næsta tímabil hefst.
„Þeir verða að treysta okkur. Sagan sýnir að við höfum gert vel þegar við höfum keypt leikmenn. Síðasta sumar keyptum við Thomas Vermaelen. Enginn vissi hver hann var en hann var valinn í lið ársins. Fólk verður því að treysta okkur til að velja rétt. Við reynum ávallt að vera klókir, raunsæir og með það að leiðarljósi að stefna með félagið í rétta átt," sagði Wenger við Sky Sports og sagði ekki koma til greina að gera mikla brerytingar og brjóta liðið upp.
„Það munu einn eða tveir hverfa á braut eins og gerist á hverju ári, en fyrsta markmiðið er að halda þessum hópi saman. Þetta er framtíðarlið, þessir leikmenn vilja spila saman og það er því mitt hlutverk að halda þeim saman," sagði Wenger.
Arsenal sækir Blackburn heim í næstsíðustu umferð úrvalsdeildarinnar í kvöld og myndi með jafntefli gulltryggja sér þriðja sætið og keppnisrétt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu næsta vetur.