Edwin van der Sar, markvörðurinn reyndi hjá Manchester United, segir að heppni ráði því að Chelsea sé nú stigi á undan United og með enska meistaratitilinn í knattspyrnu í höndunum fyrir lokaumferð úrvalsdeildarinnar.
„Þeir hafa haft heppnina með sér á mikilvægum augnablikum undanfarnar vikur, en við ekki. Chelsea er ekki í þessari stöðu vegna þess að liðið vann Liverpool, heldur vegna þess að á tímabilinu í heild hafa aðrir hlutir fallið með liðinu, ekki með okkur.
Þetta verður erfitt fyrir þessu úr þessu, og ólíklegt að okkur takist að ná titlinum, en þegar einhver smá möguleiki er fyrir hendi vill maður nýta hann. Við höldum áfram til loka. Það hefði verið þægilegt ef við hefðum verið stigi á undan þeim. En nú erum við ekki með forystuna og þá er þetta erfitt. Við verðum hinsvegar að halda okkar striki, æfa eins vel og við getum í vikunni, og reyna að sýna stuðningsmönnum okkar góðan leik á sunnudaginn. Við eigum enn möguleika," sagði van der Sar við MUTV, sjónvarpsstöð Manchester United. Hann verður fertugur síðar á árinu en mun leika allavega eitt tímabil enn með United.
Chelsea tekur á móti Wigan í lokaumferðinni á sunnudaginn og Manchester United fær Stoke í heimsókn.