Netútgáfa Daily Mail sagði í kvöld að Jamie Carragher, varnarmaður Liverpool, hygðist gefa kost á sér á ný í enska landsliðið í knattspyrnu, eftir þriggja ára fjarveru.
Carragher ákvað að hætta á meðan Steve McClaren var landsliðsþjálfari Englands þar sem hann var ósáttur við hve lítið hann spilaði, og þá helst í stöðu hægri bakvarðar. Carragher leikur fyrst og fremst sem miðvörður hjá Liverpool.
Fabio Capello, núverandi landsliðsþjálfari, er í vandræðum vegna þess hve margir varnarmenn eru tæpir fyrir lokakeppni HM í Suður-Afríku. Miðverðirnir Rio Ferdinand, Ledley King og Joleon Lescott hafa allir verið meiddir og ekki hefur legið ljóst fyrir hver muni leika við hliðina á John Terry í hjarta ensku varnarinnar. Capello hefur oft látið í veðri vaka að hann myndi hafa not fyrir Carragher ef leikmaðurinn gæfi kost á sér á ný.
Carragher, sem er 32 ára gamall, hefur spilað 34 landsleiki fyrir Englands hönd og lék í desember sinn 600. leik með Liverpool.