Stjórnarformaður Manchester City, Khaldoon Al Mubarak, segir að Roberto Mancini verði áfram knattspyrnustjóri félagsins næstu árin og vísar þar með á bug vangaveltum um að Ítalinn verði rekinn úr starfi fyrir að koma liðinu ekki í hóp fjögurra efstu liða úrvalsdeildarinnar og í Meistaradeild Evrópu.
„Roberto á eftir að skila starfi sínu fyrir okkur á frábæran hátt um mörg ókomin ár. Hann er stjórinn okkar. Hann hefur skilað stórkostlegu starfi með því að taka við liðinu á miðju tímabili og endurskipuleggja það. Ég er mjög ánægður og Sheikh Mansour (eigandinn) er himinlifandi yfir því hvernig hann hefur skipulagt liðið," sagði Mubarak á vef City í dag.
„Við teljum að hann sé hárrétti maðurinn til að stýra þessu liði næstu árin. Í sumar þarf hann að fá góðan tíma til að undirbúa liðið og skipuleggja það enn betur. Við vitum hvar þarf að styrkja félagið. Nú kemur gott undirbúningstímabil og góð byrjun á næstu leiktíð mun leiða okkur inn spennandi tíma," sagði Mubarak.
„Fimmta sætið er ekki okkar takmark, við vildum komast ofar, en það er stórt stökk. Það er mikill áfangi fyrir þetta félag að komast úr tíunda sætinu og í það fimmta," sagði stjórnarformaðurinn ennfremur.