Samtök knattspyrnustjóra í Englandi útnefndu í kvöld Roy Hodgson hjá Fulham knattspyrnustjóra ársins í fjórum efstu deildunum, fyrir frábæran árangur hans með liðið í Evrópudeild UEFA.
Þar er Fulham komið í úrslit og mætir Atlético Madrid í úrslitaleiknum í Hamborg á miðvikudagskvöldið.
Fulham hefur leikið 18 leiki í keppninni í vetur og slegið út lið eins og Roma, Juventus, Shakhtar Donetsk, Wolfsburg og Hamburger SV.
Richard Bevan, formaður Samtaka knattspyrnustjóra sagði að Hodgson hefði fengið yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í kjörinu og unnið með mestu yfirburðum í sögu kjörsins. Alls hafa 256 knattspyrnustjórar atkvæðisrétt í kjörinu.