Murphy vill fullkomna ævintýrið hjá Fulham

Roy Hodgson og Danny Murphy fagna sigri gegn Hamburg í …
Roy Hodgson og Danny Murphy fagna sigri gegn Hamburg í undanúrslitunum. Reuters

Danny Murphy, fyrirliði Fulham, hvetur félaga sína til að fullkomna ævintýri liðsins í Evrópudeild UEFA með því að leggja spænska liðið Atletico Madrid að velli en liðin mætast í úrslitaleik í Hamborg í Þýskalandi í kvöld.

Litla liðið frá London hefur komið allra liða mest á óvart og á vegi þess í átt að úrslitaleiknum hafa lið á borð við Shakhtar Donetsk, Juventus og Wolfsburg öll þurft að lúta í lægra haldi fyrir lærisveinum Roys Hodgsons, hins magnaða knattspyrnustjóra Fulham.

Leikurinn í Hamborg í kvöld er án efa stærsti leikur Fulham í 131 árs sögu félagsins en félagið hefur staðið í skugganum af Lundúnarisunum Chelsea og Arsenal og einnig Tottenham.

„Jafnvel þótt við verðskuldum það hrós sem við höfum fengið þá myndi manni ekki líða vel að vakna upp á fimmtudagsmorguninn án þess að hafa unnið titilinn. Það er frábært að vera komnir í úrslitin en við viljum fara alla leið og vinna og fullkomna ævintýri okkar. Ef okkur tekst það getum við svo sannarlega verið ánægðir með okkur og það yrði stórkostlegt afrek ef það tækist,“ segir Murphy sem vann UEFA-bikarinn með Liverpool árið 2001.

Atletico Madrid hefur ekki gengið sem skyldi í spænsku 1. deildinni en liðið er þar í 9. sæti fyrir lokaumferðina. Framherjinn Sergio Agüero vonast til að liðið geti endað tímabilið á góðum nótum og hampi Evróputitlinum í kvöld. Liðið fór afar illa af stað á tímabilinu. Það vann aðeins fimm af fyrstu 20 leikjum sínum í öllum keppnum og vann ekki leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. En Madridarliðinu hefur vegnað vel í Evrópudeildinni.

„Þetta er stórleikur fyrir okkur. Við höfum lagt mikið á okkur til að komast í úrslitaleikinn en við höfum ekkert unnið ennþá. Ég hef aldrei leikið úrslitaleik áður en vonandi næ ég að gera mitt besta og við vinnum. En þetta verður erfiður leikur því Fulham hefur sýnt að það er virkilega gott lið,“ sagði Argentínumaðurinn. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert