Chelsea bikarmeistari annað árið í röð

Didider Drogba og Ashley Cole fagna sigurmarkinu.
Didider Drogba og Ashley Cole fagna sigurmarkinu. Reuters

Didier Drogba tryggði Chelsea 1:0 sigur á Portsmouth í dag í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Chelsea er þar með sjöunda enska liðið til að vinna bæði deild og bikar á sömu leiktíð. Bæði lið klúðruðu vítaspyrnu í leiknum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Frank Lampard gerði sig líklegan til að skora á fyrstu mínútum leiksins og hann átti glæsilegt skot í stöng, alveg upp við hægri markvinkilinn, á 14. mínútu. Skömmu síðar átti Nicolas Anelka hörkuskot sem David James varði vel í horn.

Portsmouth var nálægt því að komast yfir á 22. mínútu þegar Kevin-Prince Boateng átti skot sem Frédéric Piquionne beindi að marki en Petr Cech var heppinn að vera á réttum stað og varði.

Salomon Kalou átti skot í þverslá fyrir opnu marki af um fjögurra metra færi á 28. mínútu. Hreint ótrúlegt klúður.

John Terry átti svo skalla í þverslá á 30. mínútu en inn vildi boltinn ekki. Didier Drogba var enn nær því að skora á 39. mínútu þegar hann átti þrumuskot úr aukaspyrnu en James varði í þverslána. Boltinn datt beint niður á marklínuna og vildi Drogba meina að hann færi inn fyrir, en svo var ekki.

Drogba átti fimmta skot Chelsea í tréverkið á 42. mínútu þegar hann skaut í stöng úr þröngu færi.

Michael Ballack fór meiddur af velli á 44. mínútu og í hans stað kom Juliano Belletti.

Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleik.

Kevin-Prince Boateng fékk frábært tækifæri til að koma Portsmouth yfir snemma í seinni hálfleik en hann klúðraði þá vítaspyrnu. Didier Drogba stráði salti í sárin með því að koma Chelsea yfir á 59. mínútu með fallegu skoti úr aukaspyrnu í stöng og inn.

Frank Lampard náði í vítaspyrnu á 87. mínútu en klúðraði henni sjálfur með því að skjóta framhjá.

Lið Chelsea: Cech, Ivanovic, Alex, Terry, Ashley Cole, Lampard, Ballack, Malouda, Anelka, Drogba, Kalou.
Varamenn: Hilario, Joe Cole, Zhirkov, Paulo Ferreira, Sturridge, Matic, Belletti.
Lið Portsmouth: James, Finnan, Rocha, Mokoena, Mullins, Brown, Diop, Boateng, O'Hara, Piquionne, Dindane.
Varamenn: Ashdown, Utaka, Vanden Borre, Hughes, Ben-Haim, Kanu, Belhadj.

Chelsea hefur fimm sinnum orðið bikarmeistari en Portsmouth tvisvar, síðast árið 2008.

Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson verður að gera sér að góðu að fylgjast með leiknum sem áhorfandi því hann á við meiðsli að stríða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert