Gary Neville, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Manchester United, segir að Fabio Capello hefði reynt að fá Paul Scholes, félaga sinn, til að skipta um skoðun og gefa kost á sér í enska landsliðið á ný fyrir HM í Suður-Afríku. Jafnframt lýsti Neville yfir furðu sinni á því að Jamie Carragher skyldi vera valinn í hópinn en ekki Wes Brown.
Neville sagði þetta í viðtali við maltneska dagblaðið Times of Malta og sendi þar Carragher skeyti með því að láta hafa eftir sér: „Paul Scholes er sennilega besti miðjumaður Englands og er eini leikmaðurinn sem Capello hefði átt að reyna að tala til um að gefa kost á sér á ný. Capello ræddi við Scholes til að reyna að fá hann til að fara með landsliðinu en það er orðið nokkuð síðan hann hætti og var aldrei líklegur til að skipta um skoðun."
Þá sagði Neville: „Ég er hissa á því að það skuli bara vera einn hægri bakvörður í öllum landsliðshópnum, en satt best að segja er ég enn meira undrandi á því að Wes Brown skuli ekki vera einn af þeim 30 sem voru valdir fyrir keppnina."
Scholes, sem er 35 ára, hætti að spila með enska landsliðinu árið 2004 en hafði þá leikið 66 landsleiki og skorað í þeim 14 mörk.