Brynjar Björn Gunnarsson hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við enska 1. deildarliðið Reading að því er fram kemur á vef félagsins. Í síðustu viku gerði fyrirliðinn Ívar Ingimarsson slíkt hið sama en forráðamenn Reading lögðu mikla áherslu á að halda þeim hjá félaginu.
,,Að vera áfram hjá Reading var vitaskuld fyrsti valkosturinn og ég er mjög ánægður með nýja samninginn. Það verður ánægjulegt að vera leikmaður Reading enn eitt árið,“ segir Brynjar á vef félagsins.
,,Byrjunin hjá okkur á tímabilinu var ekki sú besta en við tókum okkur saman og Brian stóð sig frábærlega vel í stjórastarfinu. Nú þurfum við bara að byggja ofan á þetta og koma sterkir inn í næsta tímabil.“
Brynjar Björn er 34 ára gamall og gekk í raðir Reading árið 2005. Hann hefur leikið um 150 leiki með liðinu og hefur í þeim skorað 10 mörk.