Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hafnar því algjörlega að búlgarski framherjinn Dimitar Berbatov verði seldur frá félaginu eins og látið hefur verið í veðri vaka.
„Alls ekki, hann er frábær fótboltamaður og verður áfram með okkur á næsta tímabili. Hann er ekki til sölu. Það eru svona vangaveltur í gangi á hverju ári, og stundum á ég að vera í þann veginn að kaupa 100 leikmenn á einu sumri. Maður verður að lifa við svoleiðis fréttaflutning. Það eru búnar að vera flugufregnir um Berbatov og hans framtíð en við vitum allt um hve góður leikmaður hann er," sagði Ferguson við MUTV, sjónvarpsstöð félagsins.
Berbatov lýsti því sjálfur yfir á dögunum að hann hefði engan áhuga á að yfirgefa United og vildi vera um kyrrt og berjast fyrir sæti sínu í liðinu.