,,Redknapp vill halda Eiði og vilji Eiðs er að halda kyrru fyrir hjá Tottenham,“ sagði Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára, í samtali við Morgunblaðið í gær en lánssamningur Eiðs við Lundúnaliðið er runninn út.
,,Ég reikna með að á næstu dögum muni Tottenham hefja viðræður við Mónakó með það fyrir augum að fá að halda Eiði og vonandi verður það bara niðurstaðan. Ég er bjartsýnn á að svo verði en þegar peningar eru annars vegar er aldrei hægt að slá neinu föstu. Eiður er mjög ánægður hjá félaginu og ég sjálfur teldi það besta kostinn fyrir hann að vera áfram hjá Tottenham. Það er alltaf erfitt að koma til liðs á miðju tímabili eins og Eiður gerði og hann myndi vilja taka gott undirbúningstímabil með liðinu og spila með því á næsta tímabili,“ sagði Arnór.
Eiður gerði þriggja ára samning við Mónakó í fyrrasumar og á því tvö ár eftir af samningi sínum við liðið frá furstaríkinu. Í janúar á þessu ári var hann lánaður til Tottenham þar sem hann kom við sögu í 14 leikjum, þar af 11 í úrvalsdeildinni, og skoraði í þeim 2 mörk.