Mikil sigurgleði í Blackpool

Charlie Adam og Jason Euell fagna sigrinum á Wembley í …
Charlie Adam og Jason Euell fagna sigrinum á Wembley í gær. Reuters

Íbúar í Blackpool fögnuðu langt fram eftir nóttu enda höfðu þeir ríka ástæðu til þess eftir að Blackpool tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með sigri gegn Cardiff, 3:2, á Wembley í gær. Blackpool leikur í deild þeirra bestu í fyrsta skipti í 39 ár en fyrir tímabilið var því spáð að liðið yrði í fallbaráttu.

Ian Holloway knattspyrnustjóri liðsins þykir hafa unnið kraftaverk en hinn gamalreyndi Brett Ormerord skoraði sigurmarkið þegar hann skoraði þriðja mark Blackpool í uppbótartíma í fyrri hálfleik.

,,Ég er að springa út stolti. Við vissum um öll gæðin í liði Cardiff og hvað það hefur sýnt á leiktíðinni. En mínir drengir börðust hetjulega allan tímann og ég er svo stoltur af þeim. Þeir voru hreint frábærir,“ sagði Holloway.

Úrslitaleikur í umspili um sæti í ensku úrvalsdeildinni er talinn vera verðmætasti fótboltaleikur í heiminum ár hvert en talið er að Blackpool fái um 90 milljónir punda.

Sparkspekingar spá því að Blackpool fari sömu leið og Burnley en Burnley komst upp í úrvalsdeildina í fyrra á ævintýralegan hátt en féll úr deildinni fyrr í mánuðinum.

,,Vð munum njóta þess að spila í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea á eftir að koma hingað og spila á Bloomfield Road og vonandi töpum við ekki 8:0 fyrir þeim,“ sagði Holloway sposkur á svip.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert