Enska knattspyrnufélaginu Crystal Palace var í dag bjargað frá gjaldþroti þegar samningar náðust um kaup á félaginu og leikvangi þess, Selhurst Park.
CPFC 2010, félag sem stofnað var um kaupin á Palace seinnipart vetrar, tilkynnti í gær að forsendur sem Bank of Scotland, aðal kröfuhafinn í Selhurst Park, hefði sett upp hefðu verið algjörlega óaðgengilegar. Félagið myndi hætta við kaupin ef ekkert breyttist og ljóst var að ef ekkert hefði gerst frekar fyrir klukkan þrjú í dag hefði Crystal Palace verið tekið til gjaldþrotaskipta og lagt niður.
Lloyds bankinn gaf hinsvegar nú síðdegis út yfirlýsingu þar sem segir að náðst hafi samkomulag við CPFC 2010 um kaup á Selhurst Park, og þar með geti félagið nú gengið frá kaupum á Crystal Palace og leikvanginum.
Crystal Palace fór í greiðslustöðvun í vetur. Tíu stig voru þá dregin af liðinu og í framhaldi af því tókst liðinu með naumindum að forðast fall úr 1. deildinni í vor.