Í Englandi er þess nú beðið með mikilli eftirvæntingu að tilkynnt verði formlega hvaða 23 leikmenn verði valdir til þátttöku með enska landsliðinu á HM í knattspyrnu. Sjö leikmenn verða skildir eftir og farið er að kvisast út hverjir það séu en Fabio Capello landsliðsþjálfari er að færa þeim fréttirnar þessa stundina.
Enskir fjölmiðlar fara hamförum þessa stundina í að grafa upp hvaða leikmenn fari ekki til Suður-Afríku.
BBC hefur fengið staðfest að Theo Walcott, kantmaður Arsenal, fari ekki með en hann er sagður hafa fengið símhringingu frá Capello skömmu fyrir hádegið, þar sem hann stytti sér stundir úti á golfvelli. Þessi tíðindi virðast koma mest á óvart.
Þá er talið víst að Leighton Baines, Darren Bent og Adam Johnson verði örugglega skildir eftir og væntanlega einnig Michael Dawson.