,,Að öllu óbreyttu verður Eiður áfram í Tottenham á næsta tímabili. Skilaboðin sem við höfum fengið frá Tottenham eru að félagið vill halda honum og ég reikna ekki með öðru en að það nái samkomulagi við Mónakó.
Það er svo sem ekkert að gerast í þessum málum eins og er en ég býst við að þau fari á hreyfingu þegar líður á mánuðinn. Ég er bjartsýnn á að Eiður verði áfram hjá Tottenham. Það er hans vilji,“ sagði Arnór Guðjohnson, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára Guðjohnsen, við Morgunblaðið í gær.
Eiður kom til Tottenham í láni frá Mónakó í janúar og gilti samningurinn út leiktíðina. Hann kom við sögu í 14 leikjum Lundúnaliðsins og skoraði í þeim tvö mörk, eitt í deildinni og eitt í bikarnum.
Eiður dvelur þessa dagana með fjölskyldu sinni í Barcelona en eiginkona hans og börn urðu eftir í Barcelona þegar Eiður hafði vistaskipti frá Katalóníuliðinu til Mónakó í ágúst í fyrra.
gummih@mbl.is