Líklegt þykir að Rafael Benítez taki við Evrópumeisturum Inter Mílanó af José Mourinho, eftir að upplýst var að honum hefði verið boðinn starfslokasamningur hjá Liverpool í gærkvöld.
Gabriele Oriali, stjórnarformaður Inter, staðfesti við Corriere dello Sport að félagið hefði mikinn áhuga á Spánverjanum. „Við erum mjög hrifnir af Rafael Benítez og hann hefur verið hátt skrifaður hjá okkur síðan hann vann Meistaradeild Evrópu í Istanbúl," sagði Oriali og vitnaði þar til sigurs Liverpool á AC Milan í úrslitaleiknum árið 2005.
Sky Sports segir að talið sé fullvíst að Benítez fari frá Anfield og til Mílanó um leið og félögin tvö hafi komist að samkomulagi um greiðslur.