Sem mikill aðdáandi Liverpool allt sitt líf segist Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga, vilja taka við knattspyrnustjórastarfi hjá félaginu en Liverpool leitar nú eftirmanns Rafael Benítez sem er hættur eftir sex ára starf.
Svíinn, sem er nú við stjórnvölinn hjá Fílabeinsströndinni, segist hafa orðið mjög hlessa þegar Rafael Benítez yfirgaf Liverpool.
,,Ég hef verið stuðningsmaður Liverpool alla ævi. Ég minntist aldrei á það þegar ég stýrði enska landsliðinu því mér fannst það ekki sanngjarnt. Ég var afar undrandi þegar ég frétti að Benítez hefði hætt,“ segir Eriksson í viðtali við enska blaðið The Sun dag.
Spurður hvort hann hafi áhuga á starfinu sagði Eriksson; ,,Það er draumur allra knattspyrnustjóra að stýra liði Liverpool. Félagið mun alla tíð skipa sérstakan sess í hjarta mínu. Faðir minn er einnig mikill stuðningsmaður Liverpool og þegar ég var að hefja minn þjálfaraferil var mér boðið að fylgjast með æfingum Liverpool. Þá var Joe Fagan við stjórnvölinn.“