Miðvallarleikmennirnir Joe Cole og Michael Ballack yfirgefa Englandsmeistara Chelsea í sumar þegar samningar þeirra við félagið renna út um næstu mánaðarmót. Frá þessu er greint á vef Chelsea í dag.
Báðir höfnuðu nýju samningstilboði frá Lundúnaliðinu sem var ekki reiðubúið að ganga að launakröfum leikmannanna. Þeir fara frá Chelsea án greiðslu.
Cole, sem er með enska landsliðinu á HM í Suður-Afríku, er orðaður við Tottenham, Arsenal og Manchester United en Ballack, sem ekki getur leikið með Þjóðverjum á HM vegna meiðsla, gæti verið á leið til Schalke og þá greina spænskir fjölmiðlar frá því að José Mourinho nýráðinn þjálfari Real Madrid hafi augastað á Þjóðverjanum.