Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands var sáttur við frammistöðu sinna manna í kvöld þrátt fyrir jafnteflið gegn Bandaríkjunum, 1:1, í fyrstu umferð C-riðilsins á HM í fótbolta í Rustenburg.
„Við sköpuðum okkur mörg marktækifæri, spiluðum vel en ein mistök leiddu til þess að mótherjarnir náðu að skora eitt mark. Þetta var góð frammistaða hjá liðinu og vonandi verðum við aðeins lánsamari í næsta leik," sagði Capello og vildi ekki setja útá Robert Green markvörði sem fékk á sig mjög slysalegt mark.
„Stundum gera framherjar mistök og stundum gera markverðir mistök. Þannig er fótboltinn. Hann var góður í seinni hálfleik," sagði Capello og kvaðst bjartsýnn á að miðvörðurinn Ledley King yrði í lagi fyrir næsta leik, á föstudaginn kemur. King þurfti að fara af velli að fyrri hálfleik loknum vegna meiðsla.
„Sennilega getur hann spilað. Þetta var bara smáræði," sagði ítalski þjálfarinn.