Liverpool vill ræða við Deschamps

Didier Deschamps hefur náð góðum árangri sem þjálfari.
Didier Deschamps hefur náð góðum árangri sem þjálfari. Reuters

Forseti franska félagsins Marseille segir að forráðamenn Liverpool hafi beðið um heimild til að ræða við Didier Deschamps, þjálfara liðsins, um að taka við starfi knattspyrnustjóra Liverpool.

Forsetinn, Jean-Claude Dassier, sagði þetta við franska íþróttadagblaðið L'Equipe og tók jafnframt fram að Liverpool ætti enga möguleika á að fá Deschamps til sín.

„Það er rétt, framkvæmdastjóri Liverpool, Christian Purslow, hringdi í mig á fimmtudagsmorguninn. Hann talar mjög góða frönsku og er mjög kurteis maður. Ég átti von á hringingu því ég hafði heyrt af áhuga Liverpool á Didier. Hann spurði hvort hann fengi leyfi til að hitta Didier og umboðsmanninn Jean-Pierre Barnes. Ég svaraði honum því að ég myndi aldrei banna neinum að hittast. Ég gaf honum hinsvegar kurteislega í skyn að hann ætti ekki ekki minnsta möguleika á að ræna af okkur þjálfaranum. Hann gæti ekki látið sig dreyma um það," sagði Dassier.

Samningur Deschamps við Marseille rennur út eftir næsta tímabil og Dassier kvaðst eiga von á að hann myndi semja við félagið á ný.

Deschamps, sem er 41 árs, var á sínum tíma fyrirliði í heims- og Evrópumeistaraliði Frakka og náði síðan afar athyglisverðum árangri með Mónakó sem varð franskur meistari undir hans stjórn og komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Þá stýrði hann Juventus uppúr ítölsku B-deildinni og fór síðan til Marseille, þar sem hann fagnaði franska meistaratitlinum á ný á nýliðnu tímabili.

Roy Hodgson hefur verið talinn lang líklegasti eftirmaður Rafaels Benítez sem knattspyrnustjóri Liverpool og jafnvel hefur verið reiknað með að gengið verði frá ráðningu hans um eða eftir helgina. Miðað við orð Frakkans er félagið þó með fleiri járn í eldinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert