Didier Deschamps, þjálfari frönsku meistaranna Marseille, segir að það sé ekki inni í myndinni hjá sér að fara til Englands og gerast knattspyrnustjóri Liverpool.
Franska íþróttadagblaðið L'Equipe upplýsti að Liverpool hefði sett sig í samband við Marseille á fimmtudag með það fyrir augum að fá að ræða við Deschamps um að taka við starfinu. Forseti Marseille staðfesti að framkvæmdastjóri Liverpool hefði haft samband við sig.
„Ég er ánægður hjá Marseille og er ekki að horfa bara á næsta ár. Þjálfari á að horfa til langs tíma og ég vonast eftir því að vera lengi hjá félaginu," sagði Deschamps við L'Equipe í dag.
Deschamps lék á sínum tíma með Chelsea en hann var fyrirliði franska landsliðsins sem varð heimsmeistari 1998 og Evrópumeistari tveimur árum síðar.