Fullkomlega löglegt mark Englands gegn Þýskalandi í 16-liða úrslitunum á HM í knattspyrnu í dag var ekki dæmt gilt. Frank Lampard átti þrumuskot í þverslána og inn á 38. mínútu og hefði jafnað leikinn í 2:2. Aðstoðardómari var ekki með á nótunum og leikurinn hélt áfram.
Í sjónvarpsútsendingu sást greinilega að boltinn fór langt innfyrir marklínuna. Segja má að þarna hafi Þjóðverjar fengið hefnd fyrir atvikið fræga á Wembley í úrslitaleik þjóðanna árið 1966 þegar Geoff Hurst átti skot í þverslá og niður á marklínuna, eða innfyrir hana, og mark var dæmt.
Leikurinn hefur verið geysileg skemmtun til þessa. Rúmar 40 mínútur eru liðnar og staðan 2:1 fyrir Þýskaland. Miroslav Klose og Lukas Podolski komu Þjóðverjum í 2:0, Matthew Upson minnkaði muninn á 37. mínútu og aðeins mínútu síðar kom sláarskotið umdeilda.
Sami aðstoðardómari gerði mistök fyrr í leiknum þegar Jermain Defoe átti skalla í þverslána á marki Þýskalands. Hann dæmdi Defoe rangstæðan en í ljós kom að það var rangur úrskurður.
Fylgst er með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.