Lampard: Ég held áfram

Frank Lampard gengur af velli eftir tapið gegn Þjóðverjum í …
Frank Lampard gengur af velli eftir tapið gegn Þjóðverjum í gær. Reuters

Frank Lampard, miðjumaður enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að það sé ekkert annað í spilunum hjá sér en að gefa kost á sér áfram í liðið þrátt fyrir vonbrigðin á HM í Suður-Afríku.

Lampard, sem er þrítugur, hafði ekki heppnina með sér í gær þegar hann skoraði með skoti í þverslána og inn en aðstoðardómari sá ekki að  boltinn fór innfyrir marklínuna og leikurinn hélt því áfram. Í stað þess að Lampard jafnaði í 2:2 tryggðu Þjóðverjar sér öruggan 4:1 sigur.

„Ég vil halda áfram að spila fyrir Englands hönd. Menn eiga eftir að ræða mikið um liðið og keppnina, ekki bara um mig. Nú verða leikmennirnir að koma sér í burtu, leiða umræðurnar hjá sér og einbeita sér að sínum verkefnum. Það er um að gera fyrir aðra að ræða hlutina en það breytir litlu fyrir okkur. Við verðum að halda okkar striki, svo einfalt er það," sagði Lampard við fréttamenn.

Hann vildi ekki fara út í nánari vangaveltur um framtíð enska liðsins. „Ég vil ekki ræða það á þessari stundi, það skýrist betur þegar allt fer í gang á ný. En vonbrigðin eru gífurleg, einhver þau mestu sem ég man eftir," sagði Frank Lampard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert