Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, nefndi þrítugan sóknarmann sem aldrei hefur spilað landsleik sem einn af mögulegum framtíðarmönnum enska landsliðsins þegar hann ræddi við enska fréttamenn í dag.
Ekki er ljóst hvort Capello heldur áfram með liðið en enska knattspyrnusambandið ætlar að taka sér góðan tíma í að skoða hvað fór úrskeiðis á HM í Suður-Afríku áður en það verður ákveðið.
Capello og hans menn eru komnir heim til Englands og þar ræddi Ítalinn málin á fréttamannafundi í dag og nefndi m.a. til sögunnar átta leikmenn sem ekki voru með liðinu á HM.
Mesta athygli vakti að Capello skyldi þar nefna Bobby Zamora, sóknarmann Fulham. Margir vildu hann í landsliðið fyrir HM vegna frábærrar frammistöðu með Lundúnaliðinu í vetur en hann varð ekki fyrir valinu. Þá taldi hann upp Owen Hargreaves, hinn margmeidda leikmann Manchester United sem lék mjög vel á HM 2006 en hefur varla spilað fótbolta í tvö ár.
Aðrir sem Capello tíndi til voru Theo Walcott, Kieran Gibbs og Jack Wilshire frá Arsenal, Matthew Dawson frá Tottenham, Adam Johnson frá Manchester City og Gabriel Agbonlahor frá Aston Villa.