Glenn Hoddle, fyrrum landsliðsþjálfari og landsliðsmaður Englands, er talinn koma sterklega til greina sem næsti knattspyrnustjóri úrvalsdeildarliðsins Fulham.
Netmiðillinn Goal.com segir að forráðamenn Fulham vilji fá mann sem vinnur mikið með liðinu á æfingasvæðinu, eins og Roy Hodgson hafi ávallt gert. Hoddle sé vel þekktur fyrir slík vinnubrögð og því þyki hann mjög álitlegur kostur.
Hoddle, sem er 52 ára, hefur ekki stjórnað félagsliði í fjögur ár en hann hætti hjá Wolves árið 2006. Undanfarin ár hefur hann einbeitt sér að rekstri knattspyrnuskóla á Spáni.
Tony Mowbray, fyrrum stjóri Celtic og WBA, er líka sagður koma sterklega til greina af sömu ástæðu og Hoddle.