Owen Hargreaves miðjumaður Manchester United glímir enn við meiðsli og sagði Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri liðsins við MUTV sjónvarpið að Hargreaves yrði ekki með liðinu í byrjun tímabilsins sem hefst í næsta mánuði.
Hargreaves hefur verið frá keppni síðasta eina og hálfa árið vegna hnémeiðsla. Reiknað hafði verið með að hann myndi spila með liðinu á lokasprettinum á síðustu leiktíð en hann lék aðeins í þrjár mínútur með aðalliðinu og spilaði fáeina varaliðsleiki.
,,Owen er farinn út til Bandaríkjanna til að hitta sérfræðing. Hann verður ekki tilbúinn fyrir tímabilið og ég veit ekki hvenær hann verður klár í slaginn,“ sagði Ferguson við MUTV sjónvarpið.
Hargreaves gekkst undir stóra hnéaðgerð árið 2008 og hefur ekki náð bót meina sinna en United keypti hann frá Bayern München árið 2007 og greiddi fyrir hann 17 milljónir punda.
Ferguson óttast einnig að Rio Ferdinand verði ekki klár í baráttuna þegar úrvalsdeildin hefst þann 16. ágúst. Ferdinand meiddist á hné á æfingu enska landsliðsins rétt fyrir HM og hefur ekki náð að hrista þau meiðsli af sér.