Emile Heskey framherji Aston Villa tilkynnti í dag að hann ætli ekki lengur að gefa kost á sér í enska landsliðið. Heskey, sem er 32 ára gamall og á að baki 62 landsleiki og 7 mörk fyrir enska landsliðið, var í leikmannahópi Englendinga á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku.
Heskey var í byrjunarliði Englendinga í leikjunum gegn Bandaríkjunum og Alsír á HM en sat á bekknum þegar England lagði Slóveníu og tryggði sér með honum sæti í 16-liða úrslitunum þar sem liðið steinlá fyrir Þjóðverjum
,,Ég hef notið hverrar mínútu á ferli mínum með enska landsliðinu og hef verið stoltur að klæðast landsliðsbúningum þegar ég hef verið svo heppinn að vera valinn. Ég vil þakka öllum landsliðsþjálfurunum sem ég hef leikið fyrir, öllum hjá enska knattspyrnusambandinu og stuðningsmönnunum fyrir stuðninginn í gegnum árin,“ sagði Heskey þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína.
Heskey lék sinn fyrsta landsleik í apríl 1999 undir stjórn Kevin Keegan þegar England lék á móti Ungverjum. Hann spilaði í úrslitakeppni EM 2000 og 2004 og var í liðinu sem tók þátt í HM 2002. Eftir þriggja ára fjarveru frá landsliðinu valdi Steve McClaren Heskey aftur í liðið en hann lék þá sinn 50. landsleik þegar England mætti Hvíta-Rússlandi.