City með Donovan og Balotelli í sigtinu

Donovan var frábær fyrir Bandaríkin á HM í sumar.
Donovan var frábær fyrir Bandaríkin á HM í sumar. Reuters

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City virðist hvergi nærri hætt í leikmannakaupum þetta sumarið þrátt fyrir að hafa þegar fengið til sín þrjá landsliðsmenn.

Félagið er með Bandaríkjamanninn Landon Donovan, sem lék vel á HM í Suður-Afríku og með Everton seinni hluta síðustu leiktíðar, og Inter-manninn Mario Balotelli, sem er óstýrilátur ungur framherji, í sigtinu að því er BBC fullyrðir.

„Landon Donovan er góður leikmaður. Það er mögulegt að við fáum hann,“ sagði Roberto Mancini stjóri City sem staddur er í Bandaríkjunum með lærisveina sína í æfinga- og keppnisferðalagi.

City-menn hafa þar að auki ekki gefið upp alla von um að fá enska landsliðsmanninn James Milner frá Aston Villa. Þá hafa þeir náð samkomulagi við Lazio um kaup á serbneska bakverðinum Aleksandar Kolarov fyrir 16 milljónir punda, eða 3 milljarða íslenskra króna.

Leikmennirnir sem komnir eru til City í sumar eru Spánverjinn David Silva, Fílabeinsstrendingurinn Yaya Toure og Þjóðverjinn Jerome Boateng.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert