Toni Freixa, talsmaður stjórnar knattspyrnudeildar Barcelona, segir að félagið fái ekki einu sinni tækifæri til að reyna að semja við Arsenal um kaup á spænska miðjumanninum Cesc Fabregas.
Fabregas hefur í marga mánuði verið orðaður við sitt gamla félag og er Arsenal sagt hafa hafnað 30 milljón punda tilboði í kappann í sumar.
„Forráðamenn Arsenal neita að setjast niður og reyna að semja við okkur. Vandamálið felst ekki í óskum okkar eða Fabregas, þeir vilja einfaldlega ekki semja,“ sagði Freixa við fréttamenn. Hann bætti því við að leit stæði yfir að öðrum miðjumanni til að leysa hinn varnarsinnaða Yaya Toure af hólmi en Toure var í sumar seldur til Manchester City.