Roy Hodgson knattspyrnustjóri Liverpool var mjög sáttur við frammistöðu sinna manna gegn FK Rabotnicki í Evrópudeildinni í kvöld en hann stýrði liðinu til 2:0 sigurs í sínum fyrsta mótsleik.
,,Ég er mjög sáttur. Þetta var leikurinn sem hefði getað reynst okkur mjög erfiður. Það var fjölmenni á leiknum og margir liðsmanna minna í kvöld ekki vanir því að spila fyrir framan svona marga áhorfendur,“ sagði Hodgson sem tefldi fram mörgum ungum og óreyndum leikmönnum.
,,Strákarnir lögðu sig vel fram í leiknum og við förum á Anfield með gott veganesti,“ sagði Hodgson en það var Frakkinn David Ngog sem skoraði bæði mörk Liverpool í leiknum.
Liverpool liðið lék án 10 leikmanna sem léku á HM í Suður-Afríku og voru margir stuðningsmenn liðsins með hnút í maganum fyrir leikinn.