Arsenal hefur hug á að kaupa þýska landsliðsmiðvörðinn Per Mertesacker frá Werder Bremen fyrir 10 milljónir punda, 1,9 milljarð íslenskra króna, að því er enska blaðið Mirror fullyrðir í dag.
Arsene Wenger stjóri Arsenal er á höttunum eftir varnarmanni eftir að gamla brýnið Sol Campbell ákvað að endurnýja ekki samning sinn við félagið heldur ganga til liðs við Newcastle. Þá er William Gallas orðinn samningslaus og þeir Philippe Senderos og Mikael Silvestre farnir frá félaginu.
Arsenal hefur þó þegar keypt miðvörðinn Laurent Koscielny fyrir 8 milljónir punda og fyrir hjá félaginu eru miðverðirnir Thomas Vermaelen, sem stóð sig frábærlega á sinni fyrstu leiktíð síðastliðinn vetur, og Johan Djourou.
Mertesacker stóð sig frábærlega með þýska landsliðinu á HM í Suður-Afríku í sumar. Hann er nú talinn fyrsti kostur hjá Arsenal sem hafði áður reynt að kaupa Phil Jagielka frá Everton, samkvæmt Mirror, en 14 milljóna punda tilboði var hafnað.