Nýliðar Blackpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eru að leita eftir leikmönnum til að styrkja þunnskipaðan leikmannahóp sinn fyrir komandi átök. Tveir leikmenn eru helst í sigtinu samkvæmt heimildum Skysports.
Það munu vera þeir Marlon Harewood og Michael Ball sem báðir hafa fína reynslu af því að leika í úrvalsdeildinni en eru án samnings sem stendur.
Harewood er framherji og var síðast á mála hjá Aston Villa en Ball, sem er bakvörður, var síðast leikmaður Manchester City. Talið er að þeir hafi báðir verið við æfingar hjá Blackpool síðustu tvo daga.
Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst 14. ágúst.