Eftir að hafa eytt miklu fé í leikmannakaup í fyrra og í sumar telur Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Englands- og bikarmeistara Chelsea að lið Manchester City hafi möguleika á að blanda sér að alvöru í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn á komandi leiktíð.
,,Manchester United á möguleika á að blanda sér í titilbaráttuna. Ég er ekkert afbrýðisamur. City þurfti á topp leikmönnum að halda en ég er með topp leikmenn á mínum snærum,“ sagði Ancelotti í viðtali við Sky Sports.
Chelsea mætir Manchester United í hinum árlega leik um Samfélagsskjöldinn á Wembley á sunnudaginn og markar leikurinn upp tímabilsins í ensku knattspyrnunni. Ancelotti býst við að tefla fram sama byrjunarliði í þeim leik og tapaði fyrir þýska liðinu Eintracht Frankfurt um síðustu helgi sem þýðir að hvorki Petr Cech og Didier Drogba verði í byrjunarliðinu en þeir eru báðir að jafna sig af meiðslum.
,,Þetta er mikilvægur leikur, sá síðasti á undirbúningstímabilinu. Við notum hann til að fara yfir ýmsa hluti áður en flautað verður til leiks í deildinni,“ sagði Ancelotti.