Manchester United hefur fengið þau skilaboð að það eigi enn möguleika á að fá þýska landsliðsmanninn Mesut Özil til liðs við sig frá þýska liðinu Werder Bremen.
Özil, sem sló í gegn með Þjóðverjum á HM í sumar, á eitt ár eftir af samningi sínum við Werder Bremen. Hann lét hafa eftir sér á dögunum að hann myndi ánægður klára samninginn við félagið en nú segir Klaus Allofs framkvæmdastjóri þýska liðsins að komi gott tilboð í leikmanninn muni það verða skoðað.
Sir Alex Ferguson hreifst mjög af frammistöðu Özil á HM og vill fá hann í sínar raðir og þá er hann einnig sagður á höttunum eftir þýska landsliðsmanninum Piotr Trochowski en líkt og Özil á hann eitt ár eftir af samningi sínum en hann er samningsbundinn Hamburg.