Skotlandsmeistarar Rangers eru hættir við að reyna að fá landsliðsmanninn Eið Smára Guðjohnsen að láni samkvæmt fréttum í skoskum fjölmiðlum í dag, en um helgina kom fram að samningaviðræður stæðu yfir á milli Mónakó og Rangers.
Í Sunday Post staðfestir knattspynustjóri Rangers, Walter Smith, að launakröfur Eiðs Smára séu of miklar. Þær eru sagðar nema 40.000 pundum á viku, sem samsvarar rúmri milljón króna á dag.
„Við getum ekki staðið undir þeim launum sem hann fær, svo hann kemur ekki til Ibrox,“ sagði Smith við blaðið.
Eiður Smári er því áfram leikmaður Mónakó í Frakklandi. Hann verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á miðvikudaginn þegar það mætir Liechtenstein á Laugardalsvelli.