Nú þegar aðeins eru nokkrir dagar í að keppni hefjist í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefur Martin O'Neill knattspyrnustjóri Aston Villa ákveðið að segja starfi sínu lausu.
Þetta er staðfest á heimasíðu félagsins í dag. Þar er ekki gefin skýring á brotthvarfi O'Neill sem hefur náð fínum árangri með Villa á síðustu árum. Það er hins vegar talið að O'Neill hafi verið ósáttur við meint metnaðarleysi forráðamanna félagsins sem seldu Gareth Barry fyrir síðustu leiktíð og hyggjast nú selja James Milner, en báðir hafa þessir leikmenn náð að skína skært hjá Villa.
„Kevin MacDonald, þjálfari varaliðsins, mun taka við sem knattspyrnustjóri að sinni og undirbúa liðið fyrir leikinn gegn West Ham á laugardaginn,“ segir í yfirlýsingu Aston Villa. Þar eru einnig nokkur orð frá O'Neill sjálfum:
„Ég hef notið þess mjög að vera hér hjá Aston villa. Það fylgir því eftirsjá að fara frá svona mögnuðu félagi. Ég vil þakka leikmönnum Villa, þjálfaraliðinu og stuðningsmönnum fyrir allan þann stuðning sem þeir hafa sýnt bæði mér og félaginu þann tíma sem ég hef verið hérna,“ sagði O'Neill.