Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur lýst yfir mikilli ánægju með nýja stefnu Arsenal en enska félagið hefur nú gert stuðningsmönnum kleift að gerast hluthafar í félaginu með því að greiða lágar upphæðir.
Þeir geta keypt hlut í félaginu fyrir allt niður í 100 pund, eða með því að greiða 10 pund á mánuði. Nýja kerfinu, "Arsenal Fanshare" var hrint í framkvæmd í dag og viðbrögð voru afar góð. Netkerfi félagsins lá niðri um tíma vegna álags en stuðningsmenn brugðust hratt við og vildu gerast hluthafar eða fá nánari upplýsingar um málið.
Michel Platini forseti UEFA segir að Arsenal hafi stigið stórt og mikilvægt skref en hann hefur harðlega gagnrýnt aukin umsvif erlendra auðmanna í enska fótboltanum. Gianni Infantino, framkvæmdastjóri UEFA, sagði við The Telegraph í kvöld að framtak enska félagsins væri sérstaklega ánægjulegt.
„Það eru góðar fréttir fyrir evrópskan fótbolta hve félög stuðningsmanna í Englandi eru orðin sterk og nýja kerfið hjá Arsenal er sérstaklega áhugavert og það styrkir hugmyndina um fjárhagslegan heiðarleika í fótboltanum. Á tímum þegar heimskreppa og skortur á aga í fjármálum ógnar tilveru margra knattspyrnufélaga er aukin þátttaka stuðningsmanna ánægjuleg og hjá UEFA tökum við svona fréttum fagnandi," sagði Infantino.
Forsætisráðherra og íþróttamálaráðherra Bretlands hafa einnig lofað framtak Arsenal. „Framlag Arsenal er uppörvandi og hvetjandi leið fyrir stuðningsmenn til að geta eignast hlut í sínum félögum. Hvert félag fyrir sig verður að ákveða hvaða stefnu það tekur en þetta vildi ég sjá fleiri gera," sagði íþróttamálaráðherrann, Hugh Robertson.