Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Reading og U21 árs landsliðsins hefur verið orðaður við Fulham síðustu dagana en Mark Hughes knattspyrnustjóri liðsins hefur ekki farið leynt með það að hann ætlar að bæta við sig leikmönnum áður en félagaskiptaglugganum verður lokað um mánaðarmótin.
,,Svona orðrómur fer alltaf í gang þegar tíu dagar eru eftir af félagaskiptaglugganum en við höfum ekki heyrt neitt frá Fulham,“ segir Brian McDermott í viðtali við netmiðilinn getreading.
Gylfi fór á kostum með Reading-liðinu á síðustu leiktíð. Hann sallaði inn mörkum fyrir liðið og lagði mörg mörk umm fyrir félaga sína og svo fór að lokum að hann var valinn leikmaður ársins. Gylfi ákvað að gera nýjan samning við Reading í vor en nokkur ensk úrvalsdeildarlið voru þá með hann undir smásjánni.
Gylfi og félagar hans taka á móti Nottingham Forest í ensku 1. deildinni á morgun og þar stefnir hann á að skora á Madejski Stadium í 9. leiknum í röð.