Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að sínir menn hafi gert kjánaleg mistök sem kostuðu þá tvö stig gegn Fulham þegar liðin skildu jöfn, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í dag.
United komst yfir sjö mínútum fyrir leikslok og fékk síðan vítaspyrnu en David Stockdale markvörður Fulham varði frá Nani. Í stað þess að United kæmist í 3:1 jafnaði Brede Hangeland fyrir Fulham í lokin.
„Þegar menn fá tækifæri til að tryggja sigurinn með vítaspyrnu eiga þeir að nýta það. Við köstuðum því frá okkur, leikmenn Fulham tvíefldust, fengu áhorfendur með sér og jöfnuðu metin," sagði Ferguson við sjónvarpsstöð félagsins, MUTV.
„Þegar við komumst yfir hélt ég að við værum sloppnir fyrir horn. En með því að brenna af vítaspyrnunni köstuðum við frá okkur tveimur stigum," sagði Ferguson.
Hann hafði greinilega ekkert með það að gera hver tæki spyrnuna því stjórinn reyndi var óhress með að Portúgalinn skyldi fara á vítapunktinn.
„Ég tel að Ryan Giggs hefði átt að taka spyrnuna. Síðast þegar við mættum Tottenham skoraði Giggs úr tveimur vítaspyrnum þó Nani væri innan vallar á sama tíma," sagði Ferguson.