Ítalska knattspyrnufélagið Juventus tilkynnti formlega í dag að gengið hefði verið frá samingum við Liverpool um eins árs lánssamning fyrir Alberto Aquilani, eftir að hann hafði staðist ítarlega læknisskoðun í Tórínó.
Aquilani kom til Juventus á sunnudaginn með það að markmiði að fara til félagsins á láni en hann er ekki inni í myndinni hjá Roy Hodgson, nýjum knattspyrnustjóra Liverpool.
Í tilkynningu sem Juventus birti á vef sínum í dag segir m.a. að næsta vor hafi félagið rétt á að kaupa Aquilani af Liverpool fyrir 16 milljón evrur, sem yrðu greiddar enska félaginu á þremur árum.
Aquilani, sem er 26 ára gamall miðjumaður, kom til Liverpool frá Roma á síðasta ári en var þjakaður af meiðslum framan af tímabilinu og komst aldrei fyllilega í gang. Hann spilaði 18 leiki í úrvalsdeildinni og 26 leiki alls á tímabilinu, og skoraði tvö mörk. Aquilani á að baki 11 landsleiki fyrir Ítalíu en var ekki valinn í 23ja manna hópinn fyrir HM í Suður-Afríku í sumar.