Bebé, portúgalski knattspyrnumaðurinn sem Manchester United keypti fyrir 7 milljónir punda í sumar, á í vandræðum með að fóta sig hjá félaginu og er ekki talinn nógu góður til að spila með varaliðinu.
Daily Mail skýrir frá því að Bebé hafi ekki verið valinn í varaliðið fyrir leik gegn Manchester City í gærkvöld og hann eigi greinilega erfiða baráttu fyrir höndum á Old Trafford.
Bebé er tvítugur framherji, ættaður frá Grænhöfðaeyjum, og kom mjög snögglega framá sjónarsviðið í Portúgal eftir að hafa skorað 40 mörk í 6 leikjum á móti í götufótbolta, en hann er uppalinn á munaðarleysingjaheimili.
Alex Ferguson ákvað að kaupa piltinn af Vitoria Guimaraes í sumar án þess að hafa séð til hans, eftir að hafa fengið mjög góð meðmæli frá fyrrum aðstoðarmanni sínum og núverandi landsliðsþjálfara Portúgals, Carlos Queiroz.